Doddi í Brooklyn

Saturday, January 11, 2003

...
Er ég kem heim í búðardal...

Jú, ekki er laust við að stemmningin hér í Miami
sé gríðarleg þessa dagana. Ég er a.m.k. í hinum besta
fíling og sé ekki betur en að hún Ásdís sé það líka.
Við erum mjög glöð hérna og búin að vera á haus síðan við
komum, við að gera íbúðina sem vistarverulegasta.
Við erum búin að kaupa skrifborð, sófaborð, sjónvarps-undirskáp,
ristavél, skál, stærstu sængur í heimi, rafmagnstannbursta
(nauðsynlegur á öllum nútímaheimilum), dvd spilara, straujárn, strauborð,
þurrksnúru, pott og sitthvað fleira. Svo erum við búin að svitna og púngsvitna
við að skrúfa allt þetta drasl saman (samt ekki straujárnið, það kom samansett).
Púff! Ég var t.d. að búast við svona léttum hálftíma í að setja sjónvarpsundirskápinn
saman. But noooooooooooooooooooo... Það fóru 3 löðursveittir tímar í það. Við þurftum
að gera nákvæmlega allt. Meiraðsegja skrúfa glerin í hurðirnar. Einkar hressandi engu að síður.

Svo voru það sængurnar maður. Enn einu sinni fengum við að kynnast því
að við erum í Meríku. Við keyptum okkur tvær sængur sem samkvæmt skil-
greiningunni áttu að vera passlegar hvor um sig fyrir einn. Þegar heim var komið
og þær teknar úr þröngu skjóðunum sem þær voru seldar í, þá kom aðeins annað
á daginn. Hvor sæng fyrir sig mundi sæma þriggja manna kjarnafjölskyldu af prýði.
Þar sem það var orðið framorðið og við orðin æst í að fara að sofa í fyrsta sinn eftir
komuna lögðum við ekki í það að pakka sængunum saman aftur til að skila þeim daginn
eftir og þurfa að sofa í fötunum fyrstu nóttina. Heldur létum við slag standa og sofum nú
eins og sex manna stórfjölskylda.

Mér er sönn ánægja að tilkynna að það stendur til að fjárfest verði í stafrænni myndavél
fyrir heimilið og því munu hér von bráðar birtast tenglar sem munu leiða ykkur, lesendur
góðir, í allan sannleikann um útlit nánasta umhverfis okkar og auðvitað okkar sjálfra.

Svo byrjar skólinn á mánudaginn og þá er ekkert meira elsku Goggi.

Hasta luego,
El Dodo el Mundo.

ps. ekki missa af nýju og stórglæsilegu athugasemdakerfi sem hér hefur verið gangstétt.
...