Doddi í Brooklyn

Tuesday, November 20, 2007

Fyrst langar mig að þakka smíðaköllunum sem eru að negla og bora og slá og saga á stillansanum sem þeir eru nýbúnir að byggja við hliðina á eldhúsglugganum okkar. Ánægjan sem þeir færa mér er ómetanleg.
Ay ay ay, andele andele, vale vale, caramba.

Látum okkur sjá, yfir hverju get ég kvartað meira...

Jú, ég get kvartað yfir veðrinu. Rigning. Kvarti kvart.

Glugginn í svefnherberginu er skrítinn. Kvart.

Þá er ég búinn með kvartið.

Ég get hins vegar ekki kvartað yfir tónleikunum sem ég fór á á laugardaginn síðasta. Þar sá ég, ásamt heitmey minni og foreldrum mínum, einn þann magnaðasta söngvara og tónskáld 20. aldarinnar, engan annan en stórflipparann Stevie Wonder. Hann er reyndar blindur, en mér finnst bara óþarfi að halda því á móti honum (hvenig segir maður hold it against him á íslensku?). Stevie var í einu orði sagt magnaður. Sumir ganga svo langt að segja að hann hafi verið kynngi magnaður. Að mínu mati kemst enginn söngvari í dag með tærnar þar sem Stevie er með hælana. Og hananú.
Ekki skemmdi heldur fyrir skemmtuninni að tveir leynigestir heiðruðu Stevie og gesti með nærveru sinni. Alveg eins og hjá Hemma í gamla daga. Hvað um það, leynigestirnir voru gammelið Tony Bennett (sem b.t.w. söng af sér rassgatið) og kven-maðurinn Prince. Má leiða líkur að því að annar hver gestur í salnum hafi þróað með sér innvortis blæðingar í raddböndum er leynigestirnir stigu á svið. Jibbíkóla og liggalá.